"Í Ólátagarði"

laugardagur, október 03, 2009

Systkinabönd

Það er stundum svolítið mikið slegist, rifist og togast á um allt og ekkert.
Stundum er það löngun í það sem systkinið er með,
Stundum er það sjálfsvörn þegar systkinið ætlar að valta yfir hitt,
Stundum er það öfund
Stundum er það af stríðni
Stundum er það af óskiljanlegri ástæðu.

En þrátt fyrir það er ástin og kærleikurinn mikill. Þessi mynd var tekin eftir sólarhringsaðskilnað þeirra systkina og segir allt sem segja þarf!

Gullmoli í boði Óðins

Lítill drengur skríður upp í fang móður sinnar og faðmar hana innilega og segir svo "Mamma, ég elska þig svo fast"

fimmtudagur, október 01, 2009

Íþróttaálfurinn Óðinn

Heimatilbúinn álfur sem er eins og skopparakringla allan sólarhringinn, gerandi armbeygjur á einni og svo á hinni, í og úr hinum ýmsu útgáfum af búningum!

Mjög reiður en þó alveg í hláturskasti!



Fyrsti leikskóladaguinn



Sport að fá að skoppast sjálf niður brekkuna!


Ekkert á því að fara heim eftir allt saman!

fimmtudagur, september 17, 2009

Vatn, vatn, vatn

Nýjasta sport á bænum er að standa uppi á upphækkun og busla í vaskinum
Þýðir nokkur fatasett á dag og mikið vatn út um allt inni á baði!
Foreldrarnir fá smáfrið á meðan, en fá svo að taka til hendinni og þurrka,þurrka og þurrka...

miðvikudagur, september 16, 2009

málþroski

Embla Ísól bætir stöðugt við nýjum orðum. Nú eru komin ca 20-25 orð hjá henni en hún er þó ekki enn farin að tengja saman tvö orð nema í söng... með söngnum talið eru orðin mun fleiri (syngur Dvel ég í draumahöll og Afi minn og amma mín.

Nýjustu orðin eru ÓI (Óðinn) og BÚIN sem hún segir alveg skýrt.

Nú verður gaman á næstunni því Óðinn bætti svo rosalega við orðaforða þegar hann byrjaði í leikskólanum sem tengist líklegast líka aldrinum ;) Ótrúlega krúttlegur aldur

Svo er ekki verra að pirringur í skapinu minnkar með hverju orðinu sem hún getur tjáð sig á annan hátt en með því að öskra eða gráta ;)

Leikskóli

Þá er dóttirin dottin í kerfið og hennar skólaganga hafin. Byrjað var á að stilla henni upp við Kópahvolsskiltið á leið inn í skólann og átti að taka sambærilega mynd og sonurinn fékk. Smellt var af tveimur myndum, en úpps - ekkert kort í vélinni :S
Það verða því falsaðar myndir í framtíðinni birtar sem FYRSTA DAGS skólamyndir

Hún var nú ekkert á því fyrst að fara inn um aðrar dyr en hún er vön á leikskólanum en samþykkti það svo... hélt að foreldrarnir væru eitthvað að villast og ætlaði að stýra þeim þá leið sem hún hefur farið frá því hún fæddist.

Embla tók sér síðan sínar 10 mínútur sem fyrr þegar komið er innan um ný andlit og umhverfi. Þá tók mín sinn stól og settist hjá krökkunum í söngstund. Svo fór hún að leika sér og bara mjög sátt. Hún var nú síðan ekki lengi að finna uppáhaldsleikfangið - opna og loka glugganum - eitthvað sem ekki er vel séð. Þetta var svo gaman að hún vildi ekki fara heim og var því aðeins lengur en til stóð svona fyrsta daginn.

Nú eru síðustu dagarnir með Sirrý ömmu og líklegt að lítil snúlla eigi eftir að sakna svolítið dekursins og athyglinnar þar á bæ.

Embla Ísól er yngsta barnið á deildinni, eina barnið sem er fædd 2008 enn sem komið er. Foreldrarnir eru nú ekki smeykir um að stóru drengirnir kaffæri henni miðað við skap og ákveðni dótturinnar. Fyndið hvað þeir höfðu meiri áhyggjur af frumburðinum innan um mun stærri stráka, en henni núna sem er enn yngri en þegar Óðinn byrjaði....

Móðirin er dottin í stjórn í foreldrafélaginu svo líklegast er hún föst þar næstu árin. Sýnist fólk með eilífðarráðningu þar.